Brostinn strengur Lyrics

Horfið (1962)

Laufið á trjánum,
sem féll í fyrra,
átti það
engin spor?
Nú hef ég gleymt
þeim ástarorðum,
sem þú hvíslaðir
að mér í vor.

Með söknuði
kveð ég ástina ungu,
sem eitt sinn
ég til þín bar.
Það er dæmt
til að deyja,
sem dauðanum
markað var.

Poem: Valborg Bentsdóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Vonin (1936)

Á veikri líftaug
vonin mín hjarir.
Hún kemur aftur,
áður en varir

Hún veit að engir
bíða þess bætur,
ef holklaki legst
við hjartarætur.

Hún kemur, svo víki
vetur og klaki,
með vor og söng
í vængjablaki.

Þar er hún komin,
sem þráði ég og unni,
með lítið, fagurt
laufblað í munni

Poem: Elín Sigurðardóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Kvöld í skógi (1933)

Alein kom eg í kyrran skóg,
um sumarkvöld.
Þráin laðaði, þögnin dró,
um sumarkvöld.
En áin niðaði svefnljóð sín,
er sveipað allt var í daggarlín
um sumarkvöld.

Máninn skein yfir skógarbrún,
þá sumarnótt.
Á vatni glampaði geislarún,
um sumarnótt.
Og stjörnur blikuðu blítt og rótt
á bláum feldi um þögla nótt,
sumarnótt.

Hver bjarkarkróna var blaðafull,
blaðafulll.
Í laufi titraði lýsigull,
mánagull.
En álfabörnum var dillað dátt,
þau drógu gullin sín fram þá nátt,
skógargull.

Poem: Margrét Jónsdóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

 

Gleym mér ei! (1981)

Þú ert blómið er fegurst
ég fann,
blómið er hjarta
mitt ann.
Gleym mér ei!

Hve fíngerð og
smá,
eru blöðin þín
blá,
Gleym mér ei!

Ég veit hve þú átt í vök
að verjast,
hve vel þér tekst þó
að berjast.
Gleym mér ei!

Poem: Sigurlaug Guðmundsdóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Aftansöngur (1909)

Hvíldu hjarta.
Húmblíð nóttin hefur fold í faðmi sveipt,
mildir geislar mánans hafa
munarslæðum dalinn reift.
Bládögg vafin blómin hvíla,
blundar fugl í kvisti vær.
Sofðu einnig, órótt hjarta,
allt er þögulrt fjær og nær.
Hvíldu, hjarta, hvíldu.

Hvíldu, hjarta.
Sjá hve fljótið silfurlygna sveimar hljótt
út í hafið ógnardjúpa
er því vaggar hægt og rótt.
Lát þú einnig, ljúfa hjarta,
ljósa drauma bera þig
burt frá sorg og burt frá kvíða,
burt frá vöku þyrnistig.
Hvíldu, hjarta, hvíldu.

Hvíldu, hjarta.
Svefnsins andi líður yfir lög og strönd;
gleymskan vefur vængjum dökkum
von og sorg í þreyttri önd.
Gleymdu, gleymdu, hrygga hjarta,
hvíldu, sofðu, dreymdu rótt!
Eins og barn að brjósti mildu
byrgir þig hin trygga nótt.
Hvíldu, hjarta, hvíldu.

Poem: Hulda
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir og
Agnes Erna Estherardóttir

 

Brostinn Strengur

Stjarna björt á heiðum himni bláum,
hún mig töfrum batt á allar lundir
Eins og barn ég stóð á stalli lágum,
starði frá mér numin margar stundir.

Þráði ég hana mitt í dagsins draumi
dáði ég hennar ljóma í húmsins veldi.
Hóf hún mig frá heimsins glysi og glaumi,
gaf mér styrk á mörgu svölu kveldi.

Svo kom hret, ég sá hana ekki lengur.
Sorgin fyllti hjartað þungum trega.
Var sem brysti hörpu stilltur strengur.
Stjörnunnar ég sakna ævinlega.

Poem: Hugrún
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

 

Gleðileg Blóm (2009)

Elsku mamma, ég á þér að þakka
að nú get ég ræktað minn garð
þú kenndir mér margt, og nú segi ég satt
því ég sé þann afrakstur nú

Hjartasár og tárin vökva
með hlýju, oft erfitt er
en með tíð og tíma og reynsluna mína
þá get ég þetta, með þér

og sjáðu blómin sem vaxa nú
og teygja sig móti þér
gul og rauð og fjólublá
allir litir, eins og lífið er

ég lifi og læri, nýti hvert tækifæri
til að eflast og komast af
en þegar deginum hallar og kvöldið það kallar
þá á ég minn samastað

og sérðu nú blómin sem vaxa hér?
eins og friðurinn innra með mér
græn og hvít og lillablá
allir litir, eins og lífið er

mér finnst gott að dvelja í garðinum mínum
og verð hér eins lengi og ég get
mundu að þú ert alltaf velkomin líka
fyrstu fræin, ég fékk ég frá þér

og hér eru blómin sem vaxa nú
ilmurinn leikur sér
appelsínugul og blá
allir litir, eins og lífið er

og sjáðu blómin sem vaxa nú
og teygja sig móti þér
gul og rauð og fjólublá
allir litir, eins og lífið er

Poem & Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Helganga (1982)

Svört nótt
næðir kalt um hljóðan reit.
Áfram,
enginn rétta stefnu veit.
Kalt blæs,
blóðið storknar, máttur dvín.
Snjórinn
breiðir út sitt brúðarlín.

Dögun.
Allt er horfið, engin slóð.
Auðnin
þylur eyrum þagnarljóð.
Felur
för hins horfna fönnin gljúp.
Gægist
sólin skær úr skýjahjúp.

Poem: Þórhildur Sveinsdóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Í veikindum

Hví ligg eg svo lágt?
Eg ligg, því mig vantar í fæturna mátt.
Þolinmóð verð eg að þreyja,
það dugar sízt að láta kjarkinn deyja.

Inni kyrrt er allt og hljótt,
eins og væri um miðja nótt.
Klukkan tifar títt og ótt,
telur dagsins stundir.

Alein sit eg inni hér,
ekki skemmtir lífið mér.
Byrgður gleðigeisli hver,
gamlar svíðar undir.

Samt eg brosi við og við,
víð mér opnast draumasvið.
Eg fer að komast fætur á,
fjarri sorgum verð ég þá,

ef mér batnar, eins og eg veit,
og ég kemst um blómareit.
Lífið draumur ávallt er,
sem eilífðinni fljótt að ber.

Gaman verður að vakna þá
og vera laus við drauma, er þjá,
líða frjáls um loftin blá,
laus við jarðarkífið.
Því hefi eg jafnan hugann á,
er harðast finnst mér lífið.

Poem: Eva Hjálmarsdóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Lífið (1933)

Lífið er stormhviða, vonirnar veikar,
vetrinum háðar sem smárósir bleikar,
ástanna blindhríð er bölvunarél.
Leið vor á skerjóttum hafvillu hrönnum
hrælogum bálkynt af táldrægum mönnum,
gleymdu því aldrei að gæta þín vel.

Sigraðu lífið með sæld þess og hörmum,
sjáðu svo ljóma af deginum vörmum
ofar en táldraumum fjöldans er fært,
fjöldans sem reikar í villu og voða,
vanans í fjötrum, sem aldrei má skoða
sannleikans árblik, svo sigrandi skært.

Poem: Guðrún Magnúsdóttir
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Sorgin (1882)

Hver lítur þá hrygð sem eg í hjarta mínu ber?
Hver heyrir þau orð sem að deyja á vörum mjer?
Ef tárin ekki falla, þau telja enginn má,
þó titri þau og logi und harmþrunginni brá.

Eg elska glaðan anda – ég elska káta lund –
og ánægð hefi’ eg lifað svo marga glaða stund.
En breytilegt er lífið, og lukkan brigðul er:
Nú liggur sorgin myrkva svo þungt á huga mjer.

En lukka! Hvað er lukka, og lán, og gæfa blíð?
Að lifa frí af harmi um alla sína tíð?
Nei – þá fjötrast hugurinn fast í þessum heim,
og fær þá sjaldan vængi er keppa að ljóssins geim.

Að heyja stríð með hreysti, það helzt minn andi kýs,
og horfa stöðugt þangað, sem launin eru vís;
og gugna ei þó dimmi og gleðin deyji brott,
og geta dulist heiminum – ó, hvað það er gott!

Að gleðiboði geng eg – þar glymur kætin há –
þá get ég líka hlegið, svo enginn vita má
hvað hjarta mínu svíður, hvað harmur minn er sár,
hvað höfði mínu þrengja hin óburtrunnu tár.

Poem: Undína
Song: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir